Kaupin á eyrinni

23.2.2010

Blogg

Ég gat ekki alveg hætt að hugsa um hið lögbundna misrétti sem ég komst á snoðir um í skákheiminum um daginn. Ég hef þegar rakið það í tveimur færslum hér á undan hvernig konur eru af löggjafanum álitnar körlum eftirbátar í skáklistinni og því veitt förgjöf í þessari íþrótt sem krefst engra þeirra líkamlegu yfirburða sem rættlætt geta t.d. kúluvarp kvenna, svo dæmi sé tekið. 

Það sem knúði á hjá mér var að vita hvernig kaupin gerast á eyrinni í jafnréttisiðnaðinum, hvernig það atvikast að vitleysisgangur eins og 3. grein laga um laun stórmeistara í skák verður til, sem eins og fyrr segir kveður á um að: „Ef ekki er kona í hópi stórmeistara skal veita laun hverju sinni a.m.k. einni konu er náð hefur afburðaárangri í skák ef slík umsókn um laun liggur fyrir“.

Ég skoðaði því feril málsins í aðdraganda þess að lögin voru samþykkt á Alþingi íslendinga í maí 1990. Það var þáverandi menntamálaráðherra, Svavar Gestson sem flutti frumvarpið. Hvergi var þó getið um ofangreint ákvæði í frumvarpi hans eins og hann lagði það upphaflega fram. Ákvæðið kemur fyrst inn í nefndaráliti Menntamálanefndar eftir umsögn Jafnréttisráðs (hvern hefði grunað?…)

Fyrirsvarsmaður menntamálanefndar segir m.a. þetta, nefndarálitinu til stuðnings:

„Ég tel rétt, virðulegi forseti, að grípa lítillega niður í umsögn Jafnréttisráðs varðandi þetta atriði. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Mikil vakning hefur verið meðal kvenna í skáklistinni þó enn hafi þær ekki náð stórmeistaratitli. Jafnréttisráð telur því mikilvægt að komið verði meira til móts við stöðu kvenna en gert er ráð fyrir í frv. Jafnframt þykir rétt að benda á að skv. 3. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, eru sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna. „Það er rétt að fram komi hér að menntmn. hefur ekki gert ráð fyrir að þetta ákvæði sé tímabundið heldur sé skylt að veita einni konu slíkan styrk, ef umsókn liggur fyrir, eða slík laun“

Það er nefninlega það. Enn og aftur eru jafnréttislög notuð til að réttlæta lögbundið kynjamisrétti í þágu kvenna – þó ótímabundið sé. Jafnréttisráði þessa tíma finnst greinilega ekkert eðlilegra en að kona fái stórmeistaralaun án þess að sýna fram á sama árangur og karlar í íþróttagrein sem hefur ekkert með líkamlegt atgervi að gera. Aukinheldur að það sé bara eðlilegt að þannig verði það um aldur og ævi.

Það vakti athygli mína hvað lítið var um andmæli gegn þessum ólögum í umræðu á þinginu. Það var í raun bara einn þingmaður, Halldór Blöndal, sem mótmælti þessu og talaði um þetta eins og þetta er – sem hreina kvenfyrirlitningu.

En svona gerast þá kaupin á eyrinni.

SJ

, , ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: