Stórmeistaralaun karla og kvenna

17.2.2010

Blogg

Eitthvað hefur "feðraveldinu" fatast flugið í skákheiminum að því er virðist.

Ég vissi þetta ekki fyrr en nýlega en skákmenn og konur sem leggja mikið á sig geta komist á laun hjá Ríkinu. Um er að ræða svokölluð Stórmeistaralaun sem veitt eru af Menntamálaráðuneytinu og nema í dag um kr. 257.000,-

Engin ósköp svosem ef fólk er á annað borð sátt við að ríkið greiði skákiðkendum laun fyrir erfiði sitt. Það er heldur ekki lítið erfiðið sem þarf að leggja á sig til að geta talist Stórmeistari (Grandmaster) í skák. Í dag eru 5 stórmeistarar á launum hjá íslenska ríkinu. Þar af ein kona. Til að öðlast titilinn Stórmeistari þarf að hafa náð tilteknum, mælanlegum árangri sem nánar er skilgreindur af Alþjóða Skáksambandinu (FIDE). FIDE heldur svo utanum árangur skákmanna mældum í svokölluðum ELO stigum. Til að öðlast stórmeistaratitil í skák þarf skákmaður að hafa náð 2.500 ELO stigum, þ.e. ef hann er karlmaður. Ef um konu er að ræða þarf hún einungis að ná 2.300 ELO stigum til að geta talist stórmeistari skv. kröfum FIDE en titill hennar er þá Women Grandmaster.

Þetta þýðir að sú vinna sem konur þurfa að leggja á sig til að komast á stórmeistaralaun er tæplega 9% minni en karla og þá má um leið segja að konur í skákheiminum hafi 9% hærri laun en karlar miðað við vinnuframlag. Ég verð að viðurkenna að ég skil fyrir það fyrsta ekki hversvegna það þarf að vera til kvennaskák og afhverju Mennta- og menningarmálaráðuneytið leyfir sér að mismuna karlkyns skákmönnum með þessum hætti.

Samkvæmt skilgreiningu Jafnréttisstofu á kynbundnum launamun þá er þetta skýrt dæmi um slíkan mun. Það eru engir þættir sem skýra þennan mun aðrir en kynferði og þar sem skák útheimtir enga þá líkamlegu þætti sem karlar hafa yfirburði í er ekki gott að sjá að einhver þörf sé á sérstökum kvennatitlum í skák. A.m.k. veit ég ekki til að hærri meðalhæð og þyngd karla nýtist þeim við iðkun skáklistarinnar

Þess má svo að lokum geta að það gekk mjög illa að fá þennan kynbundna mun staðfestan hjá FIDE og Skáksambandi Íslands en það var engu líkara en að þær konur sem ég beindi fyrirspurnum til væru eitthvað illa fyrirkallaðar – a.m.k. þann daginn.

Skák!

SJ

, , ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: