Kyn og kreppa

12.2.2010

Blogg

Um þessar mundir heyrist alltaf annað slagið barlómur um að konur komi verr út úr kreppu en karlar. Með það í huga greip ég niður í ræðu menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, sem hún hélt á ráðstefnu Kvenréttindafélags Íslands um kyn og kreppu þann 26. september ’09. Þetta hafði ráðherra um atvinnumál karla og kvenna að segja:

„Síðustu mánuði hefur atvinnuleysi meðal kvenna aukist hlutfallslega meira en meðal karla. Í sumar fækkaði körlum á atvinnuleysisskrá en konum hélt áfram að fjölga. Vinnumálastofnun telur að skýringin geti verið tímabundin og fólgin í fleiri störfum í byggingariðnaði yfir sumartímann. Nú þegar þrengir að hjá hinu opinbera er mikilvægt að gæta að því að ástandið bitni ekki á konum fremur en körlum. Ríkisstjórnin hyggur á aðgerðir sem stuðla að því að við konum blasi ekki verri staða en körlum“

Ég fletti því upp tölum um atvinnuleysi á vef Vinnumálastofnunar og svona leit staðan út í byrjun árs September 2009 þegar þegar ræðan var haldin:

  • Fjöldi atvinnulausra á landinu öllu: 12.145
  • Þar af karlar: 7.230 eða 60%
  • Þar af konur: 4.915 eða 40%

Það er nefninlega það. Þó atvinnuleysi sé 47,1% hærra meðal karla en kvenna þá hefur Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, meiri áhyggjur af atvinnuleysi kvenna en karla. Henni finnst mikilvægt að gæta að því að ástandið bitni ekki á konum fremur en körlum jafnvel þó ástandið sé helmingi verra hjá körlum þegar hún lætur ummælin falla.

Þá segir Katrín:

„Einstæðir foreldrar eru í viðkvæmri stöðu gagnvart auknu álagi sem heimili þeirra mæta. Sérstaklega þarf að huga að konum í þessu árferði því einstæðar mæður með börn á framfæri eru langstærsti hluti einstæðra foreldra. Vaxandi fjárhagsvandi heimila hefur áhrif á alla fjölskyldumeðlimi og er því nauðsynlegt að snúa vörn í sókn. Finna tækifæri sem kunna að vera innan seilingar og nýta þau svo úr verði betri líðan og bætt afkoma“

Ég bendi á að karlar eru í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem greiða meðlag og í meirhluta þeirra sem leita sér aðstoðar vegna alvarlegra greiðsluerfiðleika. Fullar atvinnuleysisbætur í dag eru kr. 149.523,- og meðlag kr. 21.657,- á mánuði fyrir eitt barn eða um 14,5% af heildarfjárhæð atvinnuleysisbóta.

Af hverju ætli ráðherra sem gefur sig út fyrir að vera jafnréttissinna hafi helmingi minni áhyggjur af atvinnuleysi karla en kvenna þrátt fyrir að vandi karla sé mælanlega allt að helmingi meiri?

SJ

, , ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: