Barnalög í höndum kvenna

12.1.2010

Blogg

Mbl.is sagði í dag frá frumvarpi til nýrra barnalaga sem er að detta af færibandinu um þessar mundir. Ég hef ekki lesið frumvarpið og ætla ekki að gera því efnislega skil í þessari færslu. Í frétt mbl.is segir m.a:

„Nefnd sem skipuð var í desember 2008 til að fara yfir reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni hefur skilað Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra tillögum sínum að breytingum á lögunum með frumvarpi og ítarlegri greinargerð. Nefndina skipuðu Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur, lektor í sifja- og erfðarétti við Háskóla Íslands, sem var formaður hennar, Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari, tilnefnd af Dómarafélagi Íslands, og Álfheiður Steinþórsdóttir sálfræðingur, tilnefnd af Sálfræðingafélagi Íslands“

Þar höfum við það. Nefnd sem vinnur frumvarp til breytinga á barnalögum er skipuð þremur konum en engum karli. Það er greinilegt að þrátt fyrir allt hjal jafnréttisiðnaðarins um kynjakvóta í nefndir og ráð á vegum ríkisins þá þykir þessu sama fólki ekkert athugavert við það að einungis konur komi að nefndarvinnu vegna nýrra barnalaga.

Hvað ætli Jafnréttisstofa segði ef nefnd sem skipuð hefði verið til að fjalla um réttindi barna okkar væri skipuð körlum einvörðungu? Ég ætla að giska á að þá hefði Jafnréttisstofa látið í sér heyra og vísað í því samhengi til 15. greinar Jafnréttislaga sem fjallar um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera, en þar segir:

„Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.

Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.

Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við“

Til gamans má svo geta þess að jafnréttislög þau sem hér er vísað til voru samþykkt á fyrri hluta árs 2008 en nefndin sem um ræðir var skipuð í lok þess sama árs. Það má því sæta furðu að sjálft ráðuneyti dómsmála skuli hafa kosið að líta fram hjá 15. grein jafnréttislaga áður en blekið var þornað – í svo mikilvægu máli.

En ekki svo furðulegt þegar maður hefur áttað sig á að jafnréttisiðnaðurinn er búinn til af konum, fyrir konur.

SJ

, ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: