Bækur: Who Stole Feminism?

20.6.2009

Bækur

Who Stole FeminismBókin Who Stole Feminism? How Women have betrayed women er uppgjör höfundar, Christina Hoff-Sommers við bandarísku femínistahreyfinguna. Bókin er sterk ádeila á femínisma eins og hann birtist höfundi bæði á meðan hún tilheyrði hreyfingunni og eins eftir að hún sagði skilið við hana eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að byltingin hefði étið börnin sín.

Bókin er vel skrifuð og ádeilan er vel fram sett af höfundi sem tekst að gera lesturinn upplýsandi og skemmtilegan með því að lýsa upplifun sinni bæði innan úr hreyfingunni og eins fyrir utan en það þarf vart að taka fram að stallsystur hennar fyrrverandi afneituðu henni eftir að höfundur vogaði sér að gagnrýna akademískt gildi kvennafræði í ritgerð sem hún kynnti á ráðstefnu um kvennafræði. Hún hefur eftir þetta gjarnan verið uppnefnd gervikona og karlkona af þessum fyrrum félögum sínum.

Höfundur lýsir og rökstyður vel þá skoðun sína að femínisminn hafi breyst til hins verra á síðari árum og kynnir til sögunnar einfalda aðgreiningu á femínistum í þessum dúr, annarsvegar talar hún um „Equity feminism“, sem gæti útlaggst jafnréttisfemínismi og hinsvegar „Gender feminism“ sem gæti útlaggst Forréttindafemínismi. Í upphafi hafi hreyfingin að megninu til verið svokallaðir jafnréttisfemínistar enda getur vart nokkur maður eða kona haldið því fram að baráttumál eins og konur fengju kosningarrétt snúist um forréttindabaráttu að nokkru leyti.

Afleiðing þessarar þróunar eru heilu bókasöfnin af aðferðfræðilega ónýtum kvennafræðirannsóknum, mýtum byggðum á ófullnægjandi rannsóknum og könnunum auk skaðlegra tilrauna til að breyta börnum í leik- og grunnskólum í anda hugmyndafræði forréttindafemínisma. Höfundur rekur mýmörg dæmi um þetta og bendir á sjálfa gallana í stað þess að láta nægja að reyfa lauslega. Þetta er á tíðum svo ótrúleg axarsköft að fyrir vikið verður úr hin mesta skemmtun að lesa.

Heilt yfir, góð bók og vel skrifuð. Trúverðugur höfundur og skilaboð. Öfgalaus málflutningur og fyndinn á köflum. Skyldulesning fyrir alla jafnréttis- og karlréttindasinna. Forréttindafemínistar ættu hinsvegar að láta hana eiga sig enda hefur orðið vart við eitthvað ójafnvægi meðal þeirra þegar höfund ber á góma.

Útgáfuár: 1994
Síðurfjöldi: 320

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: