Isavia málið: Dæmdur án réttarhalda

10.3.2011

Blogg

Isavia málið er um margt athyglisvert. Þar kvartar starfsmaður fyrirtækisins (kona) yfir háttalagi samstarfsmanns/yfirmanns (karls) gagnvart sér í sumarbústaðarferð þar sem þau voru stödd vegna vinnu sinnar. Konan kærði manninn ekki fyrir meint áreiti heldur lét nægja að kvarta við vinnuveitanda.

Isavia er dæmt í Héraðsdómi Reykjaness á grundvelli jafnréttislaga (lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008). Segja má að hér sé á ferðinni tímamótadómur þar sem viðurkennd er rík ábyrgð vinnuveitanda í málum af þessum toga. Í dómnum er viðurkennt að konan hafi borið halla af því að hafa upplýst um hina meintu kynferðislegu áreitni og að endingu hrakist úr starfi sínu á meðan meintur gerandi hélt sinni stöðu sem yfirmaður innan fyrirtækisins.

Það er virkilega athyglisvert að konunni í málinu hefur tekist, á grundvelli gildandi (ó)laga, að fá dómsuppkvaðningu sem felur í sér viðurkenningu á sekt mannsins. Þó hefur ekki farið fram nein rannsókn á meintum brotum og það eina sem liggur til grundvallar er málflutningur konunnar sem hafði fjárhagslega hagsmuni að því að dómur félli sér í hag. Meintur brotamaður fékk ekki að bera vitni í málinu né heldur vitni af atburðunum og því var engum vörnum haldið uppi í þeim hluta málsins sem snéri að ásökunum um hina kynferðislegu áreitni.

Engum hefur dulist að það hefur lengi verið draumur forréttindafemínista að skapa samfélag þar sem það nægir konu að setja fram ásakanir um kynferðisofbeldi af einhverjum toga til að fá karlmann sakfelldan. Þessi draumur virðist vera orðinn að veruleika með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.

Til hamingju með það.

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: