Jákvæð mismunun

28.2.2010

Blogg

Á vef Jafnréttisstofu má finna síðu með orðskýringum lykilhugtaka jafnréttisiðnaðarins. Um jákvæða mismunun (e. positive discrimination) segir:

„Þorgerður Einarsdóttir skilgreinir hugtakið í Morgunblaðinu, 27. ágúst 2004: „Það er jákvæð mismunun þegar einstaklingur af því kyni sem hallar á er ráðinn í starf, að uppfylltum lágmarksskilyrðum, jafnvel þótt hæfari einstaklingur af hinu kyninu sé meðal umsækjenda.“ Jákvæð mismunun er ekki það sama og sértækar aðgerðir. Íslensk löggjöf styður sértækar aðgerðir en ekki jákvæða mismunun“

Þetta stenst náttúrulega enga skoðun. Jákvæð mismunun er lögfest og sýnileg öllum þeim sem vilja sjá. Það er misvísandi að skýra hugtakið einungis út frá ráðningum í störf. Jákvæð mismunun getur birst á marga aðra vegu. Tökum nokkur dæmi:

  1. Byggðastofnun og Vinnumálastofnun, f.h. Félags- og tryggingamálaráðuneytis veitir styrki til atvinnumála kvenna. Þetta hefur verið gert frá árinu 1991 þ.e. í tæplega 20 ár. Getur það talist „sértæk aðgerð“ að veita styrki sem aðeins eru ætlaðir konum í svo langan tíma?
  2. Eins og skrifað hefur verið um á þessum vef þá þarf kona að leggja 8 – 17% minna á sig til að öðlast rétt til stórmeistaralauna í skák en karlmaður. Þetta er auðvitað bein mismunun sem í dag bitnar beint á 38 karlkyns skákmönnum sem ekki fá sömu laun og kona sem er undir þeim á styrkleikalistanum.
  3. Hér hefur áður verið skrifað um Athafnalán til Kvenna sem eru lán sem boðin voru af íslenskum einkabanka í samstarfi við Þróunarbanka Evrópu og Norræna fjárfestingabankann. Þau lán báru lægri vexti en önnur lán og voru aðeins aðgengileg konum. Þessi mismnunum var kærð til Kærunefndar Jafnréttismála en kærunni var vísað frá.
  4. Það sem einna helst sýnir okkur fram á að jákvæð mismunun er bundin í lög er c. liður gildandi Jafnréttislaga en þar segir að hlutverk laganna sé m.a. að: „bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu“.

Allt þetta hefur svo þau heildaráhrif að skapa þá vitund í huga karla og kvenna að það sé sjálfsagt mál að veita konum forgjöf í samfélaginu og það sem verra er að þær séu á einhvern hátt lakara kynið.

Þorgerður Einarsdóttir er prófessor í Kynjafræði við Háskóla Íslands og engin aukvisi þegar kemur að forréttindabaráttunni. Hún veit sem er að hugtakið jákvæð mismunun er forréttindafemínisma ekki til framdráttar enda hefur það yfir sér neikvæðan blæ. Það hentar áróðursvélinni því betur að kalla þetta mildari nöfnum eins og „sértækar aðgerðir“ sem hún og gerir.

Okkur hinum nægir að horfa á lög landsins og vel valdar aðgerðir og aðgerðaleysi jafnréttisiðnaðarins til að vita að „jákvæð mismunun“ er og hefur verið staðreynd á Íslandi um áratugaskeið.

SJ

, , ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: