Jákvæð mismunun í skák

21.2.2010

Blogg

Í framhaldi af færslu minni „Stórmeistaralaun karla og kvenna“ fékk ég sendan áhugaverðan póst frá aðila sem er betur að sér í skákheiminum en ég. Hann benti mér á að til eru lög um launasjóð stórmeistara í skák ásamt því sem hann benti mér á stigatöflu skákmanna á íslandi gefinni út af Skáksambandi Íslands.

Það sem kemur upp úr kafinu er að eini íslenski kvenstórmeistarinn í skák hefur ekki einu sinni náð stórmeistaratitli kvenna eins og hann er skilgreindur skv. FIDE. Það sem útskýrir titil hennar er ákvæði í áðurnefndum lögum um launasjóð stórmeistara í skák nr. 58, 1990. Þar segir í 3. gr:

„Ef ekki er kona í hópi stórmeistara skal veita laun hverju sinni a.m.k. einni konu er náð hefur afburðaárangri í skák ef slík umsókn um laun liggur fyrir“

Það er bara svona. Til að friðþægja einhverja forréttindafemínista við lagasetningu þessa var skotið inn svona eins og einu heiðurssæti fyrir konu – af því bara.

Samkvæmt stigatöflu Skáksambands Íslands frá mars 2006 (sem er næsta aðgengilegasta taflan frá þeim tíma þegar konan hlaut titilinn) þá er konan, sem hlaut laun úr Launasjóði Stórmeistara í Skák árið 2005, með einungis 2.140 ELO stig á þeim tíma. Það segir okkur að karlmenn sem á sama tíma þyggja stórmeistaralaun þuftu að leggja um 17% meira á sig en hún til að komast á sömu laun og um leið er hægt að segja að hún er því með 17% hærri laun fyrir sama starf á grundvelli kyns.

Þetta kallast kynbundinn launamunur í mínum heimi en líklega kallast þetta tilraun til samþættingar kynjasjónarmiða í ráðstöfun opinberra fjármuna í heimi forréttindafemínista, eða eitthvað álíka.

Þegar maður svo skoðar nýjustu aðgengilegu stigatöflu Skáksambands Íslands frá september 2009 sést að konan hefur verið að hækka sig á stigalistanum og stendur nú í 2.230 stigum. Hún er númer 46 á styrkleikalistanum en átta efstu eru með yfir 2.500 stig og geta því þegið stórmeistaralaun. Þeir 38 karlmenn sem eru undir 2.500 stigum en þó yfir stórmeistara kvenna verða að bíta í það súra epli að fá ekki stórmeistaralaun þar sem þeir eru ekki konur þrátt fyrir að hafa náð betri árangri en konan. Það er því ekkert sem þeir geta mögulega gert til að njóta sömu launa og hún fyrir sama vinnuframlag.

Til gamans má svo geta þess að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna og forréttindafemínisti með meiru var einmitt forseti Skáksambands Íslands þegar konan ónefnda fékk þennan sess. 

Ég gef leikinn.

SJ

, , ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: