Kynbundinn dauðamunur

5.2.2010

Blogg

Þetta er Króna konunnar, fyrirbæri sem forréttindafemínistar fundu upp og seldu mæðulegir til að vekja athygli á meintu launamisrétti gagnvart konum.

Við gagnaöflun vegna greinarinnar Völd rakst ég á ansi merkileg gögn um tíðni vinnuslysa. 

Gögnin eru fengin af vef Vinnueftirlitsins og sýna skráningu vinnuslysa frá 1980 til dagsins í dag. Skoðuð var tíðni alvarlegra vinnuslysa sem leiddu til þess að starfsmaður hætti starfi vegna örorku eða lést. Tegundir áverka í athugun þessari voru; Innvortis blæðing (m.a. mar og blæðing inn í líkamshol), útvortis blæðing, missir líkamshluta, tognun / liðhlaup, beinbrot, bruni, kal, æting, eitrun og annað / óskilgreint. 

Ég þóttist nú vita að ég myndi sjá mikinn mun körlum í óhag eins og tölur frá öllum öðrum löndum í okkar heimshluta sýna en ekki  átti ég von á jafn sláandi mun og raun ber vitni. Frá árinu 1980 hafa 703 einstaklingar orðið fyrir svo alvarlegum vinnuslysum að örorka eða dauði hlýst af. Við skulum skoða kynjaskiptinguna: 

  • Hættir starfi, óvinnufær: 467 karlar – 140 konur.
  • Vinnuslys sem leiðir til dauða: 94 karlar – 2 konur.

Til að gæta fullrar sanngirni gæti þessi mynd þá verið fyrirmyndin að krónu karlsins - ekki satt?

Þetta er ansi mikill og skýr munur. Karlar eru 77% þeirra sem vegna varanlegrar örorku í kjölfar vinnuslyss verða að hverfa af vinnumarkaði og heil 98% þeirra sem deyja af völdum vinnuslysa. Þ.e. þegar einstaklingur lætur lífið við vinnu er 47 sinnum líklegra að þar látist maður en kona. Enn athyglisverðara þykir mér að ég hafi aldrei lesið, séð né heyrt á þetta minnst í jafnréttisumræðunni hér heima – hvorki fyrr né síðar og hef ég þó verið að fylgjast með.

Það kann að koma þeim á óvart sem hafa ekki áttað sig á að jafnréttisbaráttan er ekki jafnréttisbarátta heldur barátta fyrir kven- og forréttindum eða hvað annað ætti að skýra það að á þetta sé ekki minnst þegar ræddur er launamunur kynja? Er virkilega svo sjálfsagt að karlar leggji líf og heilsu í svo miklu meiri mæli í hættu en konur og fái ekki greitt í samræmi við áhættu? Er það virkilega svo að jafnréttisiðnaðinum þyki sjálfsagt að þjóðarframleiðsla íslands kosti rúmlega 3 karlmenn lífið árlega og heilsu 16 annara í þokkabót? Þetta má umorða og segja sem svo að til að kynda katla þjóðarframleiðslunnar þurfi líf og heilsu 20 karlmanna ár hvert. 

Svo er enginn maður með mönnum nema hann sé tilbúinn að óskapast yfir launamuni kynja. Þingmenn horfa raunamæddir í sjónvarpsvélarnar þegar þetta málefni ber á góma og tala alvarlegir um hve nauðsynlegt það sé að uppræta launamun kynja en enginn minnist á dauðamun kynja.

Já, þetta sýnir svart á hvítu að laun kvenna eru meira virði en mannslíf karla. Varla dettur nokkrum manni í hug að ekki væri veri að leita leiða til að snúa þróuninni við ef það væru 20 konur sem lægju í valnum ár hvert svo atvinnulífið hefði sinn gang.

SJ

, ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: