Þegar lögmaðurinn, Thomas B. James settist niður til að skrifa bókina Domestic Violence: The 12 Things You Aren’t Supposed to Know gerði hann það vegna þess að honum fannst hann verða að segja sannleikann um heimilisofbeldi. Sem lögmaður sem vann með fórnarlömb heimilisofbeldis hafði hann áttað sig á að ýmislegt er látið ósagt í sambandi við þennan málaflokk. Það er enda svo að staðalímyndirnar um karlinn og konuna í dag eru eitthvað á þann veg að karlar séu vondir og konur fórnarlömb þeirrar karllægu illsku. Þarna stígur höfundur inn á jarðsprengjusvæði enda er umræðunni um heimilisofbeldi stýrt af konum sem hafa einbeittan vilja til að halda á lofti áðurnefndum staðalímyndum um karlinn sem vondan og ofbeldisfullan en konuna sem fórnarlamb.
Í bókinni rekur höfundur upp nokkrar af þeim mýtum sem viðgangast um heimilisofbeldi og fer ofan í saumana á hvernig þær urðu til og hvað heldur í þeim lífi. Höfundi tekst nokkuð vel upp í þeirri viðleitni sinni og ýmislegt sem hann setur fram í bókinni er sláandi með hliðsjón af þeim möntrum sem við erum öll mötuð á daginn út og inn. Höfundi tekst líka ágætlega að sýna fram á hvernig þessar mýtur hafa leitt til kerfisbundinnar mismununar gegn körlum og hvernig rannsakendur á sviði heimilisofbeldis sem hafa komist að niðurstöðum andstæðum þessum mýtum hafa mætt andúð og jafnvel útskúfun fyrir vikið.
Útgáfuár: 2003
Síðufjöldi: 292
SJ
3.2.2010
Bækur