Í framhaldi af bloggfærslu minni „Kvennahækjur“ frá 15 jan. sl. fékk ég sendan áhugaverðan tölvupóst frá karlmanni sem hafði frá svipuðu misrétti að segja. Ég mundi það reyndar um leið og hann minnti mig á það; Athafnalán til kvenna í atvinnurekstri var lánaafurð sem SPRON hleypti af stokkunum árið 2007 – einmitt þegar það var svo agalega erfitt að fá lán muniði.
Lánin voru einungis veitt fyrirtækjum í eigu eða undir stjórn kvenna og voru sögð bera lægri vexti en önnur lán og niðurgreidd af Þróunarbanka Evrópu og Norræna Fjárfestingarbankanum. Þetta slær náttúrulega öll met! Þróunarhjálp til handa íslenskum konum árið 2007! Hver þurfti ekki þróunarhjálp á íslandi árið 2007?!
Sendandi hafði þó annað og meira erindi en bara að minna mig á þessi kvennalán því hann hafði gengið svo langt að senda Kærunefnd Jafnréttismála kæru vegna þessarar mismununar. Kæruna byggði hann á því að honum þætti það óeðlilegt að kona gæti fjármagnað fyrirtæki sitt með hagkvæmari hætti en hann og skapað sér þannig aðstöðumun á markaði sem fyrirtæki hennar gæti nýtt sér gegn fyrirtæki hans í samkeppni. Í kæru sinni kom fram að hann væri ekki að sækja um lánið enda væri félag hans fullfjármagnað að sinni og hann þyrfti því ekki á láni að halda akkúrat á þessum tíma. (Fyrir ykkur sem ekki vitið þá getur hver sem er sent kæru til Kærunefndar Jafnréttismála telji hann á sér brotið á grundvelli kynferðis. Kærunefndin getur líka upp á sitt einsdæmi tekið upp mál telji hún þau brjóta gegn ákvæðum jafnréttislaga).
Úrskurður nefndarinnar lét ekki á sér standa. Málinu vísað frá vegna aðildarskorts, þ.e. þar sem kærandi hafði ekki fengið synjun um þetta tiltekna lán þá var hann, af kærunefndinni, ekki talin aðili að málinu. Þetta brýtur í bága við grunnröksemdarfærslu kæranda sem byggði kæru sína á því að niðurgreidd lán mismunuðu honum á markaði þegar annað fólk en hann (konur) tækju lánin og færu í samkeppni við fyrirtæki hans.
Í símtali við milli hans og starfsmanns nefndarinnar fékk hann svo framhaldsrökstuðning en ónefndur starfsmaður benti honum á að „víst væru til karlalán – t.d. öll gröfulánin“. Með símtali til tveggja stærstu fjármögnunarfyrirtækja sem þá voru starfandi fékkst staðfest að í lánaskilmálum þeirra vegna lána til kaupa á atvinnutækjum (sem reyndar eru ekki niðurgreidd) kemur hvergi fram að þú þurfir að vera karlmaður til að fá þau.
Þessi málalok – og svar starfsmanns nefndarinnar – sanna það sem allir vita – Jafnréttisstofa og Kærunefnd Jafnréttismála eru stofnanir fyrir konur og kvenréttindi. Eða eigum við virkilega að halda að banki hefði komist upp með að bjóða „karlalán“? Sjálfur held ég að þá þyrfti ekki kæru til, ég held að nefndin myndi nýta sér rétt sinn og skyldu til að taka upp málið af eigin frumkvæði og vera snögg að því.
Hvað um það, skilaboðin er skýr. Með þessu er Spron, Þróunarbanki Evrópu og Norræni fjárfestingarbankinn auk Kærunefndar Jafnréttismála að segja að konum sé ekki treystandi til að stunda atvinnurekstur á frjálsum markaði án aðstoðar, jafnvel þegar aðgangur að fjármagni er með besta móti.
SJ
25.1.2010
Blogg