Þegar búið er að halda að þjóðarsálinni hygmyndinni um veiku, getulitlu (og pínulítið vitlausu konuna) jafn lengi og forréttindafemínismi hefur gert verður fáránleiki ýmissa fyrirbrigða í samfélaginu mörgum ósýnilegur. Þetta á t.d. við um atvinnuþróunarstyrki kvenna:
Þrátt fyrir gildandi jafnréttislög banni mismunun á grundvelli kynferðis og segi orðrétt í 24. gr: „Hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil“ þá sér Vinnumálastofnun og sjálft Félagsmálaráðuneytið ekkert að því að bjóða almenna atvinnuþrónarstyrki til kvenna og útiloka því karlmenn sem mögulega umsækjendur.
Í 25. grein Jafnréttislaga segir ennfremur að Atvinnurekendum sé „óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns“. Ríkið virðist aftur á móti mega mismuna að vild. Þetta gæti auðvitað haft eitthvað að gera með þá staðreynd að forréttindafemínistar eru búnir að koma sér haganlega fyrir á helstu stöðum í ríkisbákninu og telja sig líklega þess betur umkomna en sauðsvartan almúgan að ráðstafa réttlætinu.
Fjármagn til ný- og atvinnusköpunar er af skornum skammti og eftirspurn eftir fé til málaflokksins er alltaf meiri en framboðið. Það eru ekki til neinir „karlastyrkir“ og allir styrkir sem körlum bjóðast eru því jafn aðgengilegir konum. Hér er því um að ræða grófa mismunun sem aldrei nokkurntíman myndi líðast væri hún á hinn veginn.
Það er samt grátbroslegt að hið opinbera hafi séð ástæðu til að bjóða þessa styrki allt síðasta hagvaxtarskeið þegar stærsta útlánabóla íslandssögunnar var í hámarki. Á þessum tíma gat fermingarkrakki fengið fjölþjóðlegt sambankalán til að þróa afgassafnkúta á rassgöt ánamaðka til að hægja á hlýnun jarðar. En að konur gætu á almennum markaði fengið fjármagn til að hrinda eðlilegum viðskiptahugmyndum í framkvæmd – óhugsandi, algjörlega óhugsandi.
A.m.k. verður ekki betur séð en að það sé mat Vinnumálastofnunar og Félagsmálaráðuneytisins sem augljóslega sjá konur sem andlega og félagslega hálfdrættinga.
Eða hvað á maður að halda?
SJ
15.1.2010
Blogg