Aðstoðarkona Dómsmálaráðherra um barnalaganefnd

13.1.2010

Blogg

Útvarpsþátturinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni tók smá sprett á sama málefni og skrifað var um hér í gær, þ.e. barnalaganefndina sem eingöngu er skipuð konum. Í þættinum var tekið símaviðtal við aðstoðarkonu Dómsmálaráðherra, Ásu Ólafsdóttur. Það var þrennt sem ég tók út úr þessu samtali.

Í fyrsta lagi var það gamalkunn tugga um að misrétti gagnvart konum í fortíð réttlæti misrétti gagnvart körlum í nútíð. Ása segir í móðurlegum tón:

„Það er nú eiginlega ekki hægt að horfa fram hjá því að fyrr á árum þá atvikaðist það nú oftar þannig að það voru bara karlar í opinberum nefndum“

Haldið ykkur fast strákar. Eins og saga kvenna hefur verið skrifuð af konum þá ku það hreint ekki hafa verið tekið út með sældinni að hljóta þau örlög að fæðast sem kona. Þetta hefur verið rakið árþúsundir aftur í tímann. Það er því allt útlit fyrir að okkar bíði þúsundir ára af misrétti áður en við getum talist hafa tekið út refsinguna okkar og samfélagið geti farið að tileinka sér gagnkvæmt jafnrétti.

Í öðru lagi var það réttlæting aðstoðarkonu ráðherra á því að ekki hafi verið skipað í nefndina í anda jafnréttislaga. Skýringin var ekki eins lagatæknileg og við mátti búast heldur að þeir sem tilnefndu í nefndina, hefðu bara tilnefnt konur. Þ.e.a.s. Dómsmálaráðuneytið, Dómarafélag Íslands og Sálfræðingafélag Íslands.

Þetta hlýtur að hafa fordæmisgildi komandi frá aðstoðarkonu Dómsmálaráðherra. Nú er alltaf verið að tala um að setja kynjakvóta á fyrirtæki í einkaeigu. Þegar sú kvöð verður lögfest þá hlýtur að nægja körlum sem fá bréf frá Jafnréttisstofu að segja bara „Það voru bara karlar tilnefndir af hluthöfum“.

Að lokum er það svo rúsínan í pylsuendanum. Þáttarstjórnandi spurði hvort nú færi að verða tilefni til að afnema lög um kynjakvóta og kvaðst hafa heyrt umræður frá Svíþjóð í þeim dúr. Um það sagði Ása það vera slæmt ef konur færu að verða fyrir barðinu á kynjakvótum.

Semsagt jafnréttislögum var aldrei og er ekki ætlað að rétta hlut karla þar sem hann þarf að rétta heldur einungis hlut kvenna.

Til að gæta sanngirni skal tekið fram að Ása kvaðst telja heppilegast að nefndir væru sem mest blandaðar en það breytir ekki því að ef Jafnréttisiðnaðurinn ætlar að krefjast laga um kynjakvóta þá verður það að virka á báða vegu í verki en ekki bara orði.

Viðtalið má heyra á vef Bylgjunnar með því að smella hér.

SJ

, ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: