Bækur: Brainsex

25.10.2009

Bækur

Þegar ég lagði bókina Brainsex frá mér hugsaði ég með mér „um hvað er eiginlega verið að rífast?“ Bókin er skrifuð af erfðafræðingnum Anne Moir og David Jessel, blaðamanni og leggur þar af leiðandi út frá þeim líffræðilega mun sem á kynjunum er.

Kynjastríðið sem háð er í dag grundvallast á kenningum sem fæðast innan félagsvísindagreina (kvennafræða) háskóla um allan heim auk þess sem hugmyndir forréttindafemínista í grasrótarsamtökum ná að einhverju marki hljómgrunni. Sú raunvísindalega nálgun sem bókin gengur út frá nær langt með að slá margt af því sem forréttindafemínistar halda fram út af borðinu. Eðlisafneitun sú sem byggð hefur verið inn í baráttu forréttindafemínista undanfarna áratugi verður hjákátleg í samanburði við hörð sönnunargögn. Sérstaklega fannst mér áhugavert að lesa um rannsóknir sem sýndu fram á mun milli kynja í atferli allt niður í nokkurra klukkustunda gömul börn. Margt af því sem fram kemur í bókinni er einfaldlega hættuleg að segja í því rétttrúnaðarandrúmslofti sem einkennir nútímann.

Það er alls ekki svo að bókin vegi eitthað sérstaklega að konum frekar en körlum. Karlar fá sinn skammt af óþægilegum uppýsingum og best er að lesa bókina með það í huga að kynin eru einfaldlega ólík að mörgu leyti. Karlar eru sterkari í sumu, konur í öðru. Karlar hafa völd á ákveðnum sviðum sem leiða af náttúrulegum yfirburðum. Konur hafa völd a öðrum sviðum sem líka leiða af náttúrulegum yfirburðum.

Einhver kynni að segja að bókin væri of gömul til að eiga erindi inn í kynjaumræðu dagsins í dag. Ég segi á móti; Þróunarsaga mannsins er of löng til að þetta geti skipt máli og líklegast hefur engin stökkbreyting orðið á síðustu 20 árum þó ungum hugsuðum finnist kannski gaman að daðra við þá hugmynd yfir lattebolla.

Útgáfuár: 1989
Síðufjöldi: 256

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: